Nr 14: F-in tvö: förgun eða forðun?
Síðustu vikur voru mjög fjörugar í heimi kolefnisförgunar. Aukinn áhugi fjárfesta og kaupenda á förgunareiningum (e. carbon removal credits) eykur á flækjustigið á glænýjum markaði. Ýmis framsækin fyrirtæki sækjast eftir því að borga fyrir jákvæðar aðgerðir á valfrjálsum mörkuðum (e. voluntary markets) sem minnka magn CO2 í andrúmsloftinu, en oft skortir á mikilvægar umræður eða upplýsingar um gæði og tegundir þessara kaupa. Kolefnisjöfnun er ekki það sama og kolefnisjöfnun.
Kolefnisjafnanir (e. carbon offset) koma í mörgum útfærslum en helsta skipting er milli tveggja grunnþátta. Er jöfnunin förgun (e. removal) eða forðun (e. avoidance)? Snúast kaupin um að fjarlægja CO2 úr hringrás andrúmsloftsins, eða er verið að borga einum aðila fyrir að menga minna?
Kolefnisförgun snýst um að fjarlægja CO2 úr andrúmsloftinu og hringrás kolefnisins; þ.e. koma því fyrir einhvers staðar til langs tíma og taka úr umferð. Dæmi um það er t.d. Orca, verkefni Climeworks og Carbfix á Hellisheiði, þar sem allt að 4.000 tonn á ári eru soguð úr andrúmsloftinu og geymd í bergi í mjög langan tíma. Niðurstaða kolefnisförgunar er minna CO2 í andrúmsloftinu.
Kolefnisforðun snýst um að aðili (t.d. fyrirtæki eða einstaklingur) borgar öðrum aðila (beint eða óbeint) fyrir að gera eitthvað sem kemur í veg fyrir losun eða gera ekki eitthvað sem losar. Erfitt er að mæla áhrif (e. verification) kolefnisforðunar, tryggja að peningurinn fari í eitthvað sem hefði ekki gerst hvort sem er (e. additionality) og passa upp á að áhrifin endist (e. permanence). Sem dæmi, ef ég borga einhverjum fyrir það að höggva ekki niður skóg, hvernig vitum við að viðkomandi hafi í raun ætlað að höggva niður skóginn og hvernig tryggjum við að viðkomandi geri það ekki bara samt, viku síðar?
📚👉 Lestu meira: Climate Tech VC teymið tók mjög góða yfirferð um þetta málefni nýlega.
Báðar leiðir eiga við sín vandamál að stríða. Kolefnisförgun er glænýr bransi. Verð og gæði förgunarverkefna eru mjög breytileg, mælingar og sannreyningar fá ekki jafn mikið fjármagn og förgunarlausnir, og enn er umdeilt hvort mögulegt (eða ráðlegt) sé að skala upp þessar lausnir svo þær hafi raunveruleg áhrif.
Til viðbótar við þessa tvo yfirflokka, er einnig oft rætt um kolefnisföngun (e. carbon capture). Kolefnisföngun er tækni og aðferð sem snýst um að grípa CO2 og minnka skaðlegan útblástur. Tæknin er yfirleitt notuð af iðnaði sem leysir mikið CO2 við útblástur, og er upprunnin í jarðefnaeldsneytisbransanum. Olíu- og gasfyrirtæki hafa t.a.m. nýtt þessa tækni til að auka framleiðslugetu og lækka kostnað. Tækni sem aðgreinir og grípur CO2 er t.d. komið fyrir á útblástursstrompum orkuvera. Fyrirtæki geta svo annaðhvort nýtt CO2 í sinni starfsemi, selt til annarra aðila (t.d. gosframleiðanda) eða dælt því niður (og minnkað þannig losun til langs tíma). Dæmi um þetta á Íslandi er tækni Carbfix sem tengist Hellisheiðarvirkjun, þar sem CO2 sem losnar sem hluti af jarðvarmavirkjuninni er gripið og dælt niður aftur til geymslu í mjög langan tíma.
👉 Fyrir meiri lestur þá mælum við með:
Carbon Removal vs. Carbon Capture Fact Sheet frá Environmental Defense Fund
Carbon Removal vs. Offseting frá Recapture
Íslenskur lofthreinsiklasi?
Í kjölfar þess að Carbfix fékk tvö XPRIZE vörðuverðlaun skrifaði Kári Helgason, forstöðumaður rannsókna og nýsköpunar, grein í Fréttablaðið, þar sem fram kemur að bæði Heirloom Carbon og Verdox stefni á að koma upp lofthreinsiveri (e. direct air capture plant) á Íslandi á næstu 2-3 árum.
Þessi litli punktur er mjög áhugaverður. Tveir af fimmtán vörðuverðlaunahöfum XPRIZE verða að öllum líkindum með einhvers konar starfsemi á Íslandi áður en langt um líður. Þá verða þrjú fyrirtæki í glænýjum iðnaði starfandi hér, og Ísland með u.þ.b. eitt lofthreinsiver á hverja 120 þús íbúa (sem sagt best í heimi, per capita).
Nú þurfum við að vona að þau komi ekki bara með hreinsiverin, heldur líka með þekkingarstörf. Í Bandaríkjunum er búið að eyrnamerkja ~450 milljarða í að byggja upp svæðisbundna „DAC hubs“ eða lofthreinsiklasa. Er ekki dauðafæri að Ísland hugsi um eitthvað svipað?
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu á þá „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Þetta helst
🏆 Tvö verkefni Carbfix unnu vörðuverðlaun í kolefnisförgunarverðlaunum XPRIZE. XPRIZE eru alþjóðlegar samkeppnir sem miða að því að nýta keppnisanda til að stuðla að framþróun. Elon Musk fjármagnaði $100m (~13ma ISK) verðlaunaflokk í Carbon Removal. 1133 teymi sendu inn, þar af voru 287 sem uppfylltu skilyrði fyrir þátttöku nógu ítarlega til að vera rýnd. 15 þeirra fengu vörðuverðlaun að upphæð $1m hvert. Næstu ár snúast svo um að framkvæma planið og sýna fram á skalanleika. Til mikils er að vinna - fyrsta sætið fær $50m (~6.3ma ISK). Tvö þeirra verkefna sem Carbfix var hluti af unnu til verðlauna - Heirloom Carbon (sem nýlega gáfu út hvítbók um aðferðina sína) og Verdox.
🪵 Byko hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Nýjar höfuðstöðvar Byko við Breiddina verða BREEAM vottaðar og í síðustu viku prófaði Byko að landa 26.000 fermetrum af timbri í Akureyrarhöfn og minnka þar með vistsporið sem annars fengist við það að keyra frá Reykjavík.
🔋Íslenska fyrirtækið Alor ætlar að gjörbylta raforkumarkaði með framleiðslu og markaðssetningu á álrafhlöðum. Alor er í samstarfi við spænska fyrirtækið Albufera, en tæknin kemur þaðan.
🏭 Það er lítill pólitískur vilji fyrir því að fá aftur mengandi stóriðju í Helguvík en áherslur lagðar á græna starfsemi og hringrásarhagkerfi. Enn er rætt um rafmagnsskort en Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, fullyrðir að „það vanti meira að segja hleðslustöðvar í bæinn vegna rafmagnsskorts.“
🤝 Grænvangur heldur Loftslagsmót þann 4. maí, þar sem fyrirtæki, frumkvöðlar og aðrir úr atvinnulífinu geta tengst á örfundum og rætt lausnir á sviði umhverfis- og loftslagsmála.
Annað sem við lásum
🫠 Sífrerinn í Alaska bráðnar hratt og íbúar hafa ekki undan við að rétta undirstöður bygginga til þess að þær halli ekki.
👷♀️ Það þarf að semja góðar reglugerðir um öryggi tengt pípulögnum sem flytja CO2. Metið er að það þurfi að byggja á milli 48.000-100.000 km af slíkum lögnum í Bandaríkjunum á næstu árum til að flytja CO2 frá föngunarstað til förgunar.
🪫 Okkur skortir liþín
🕸 Lofthreinisklasar