Nr 16: Frímiðar á loftslagsráðstefnuna Ok, bye og hvað á svo að kjósa á laugardaginn?
Þú gætir unnið frímiða á Ok, bye!
Loftslagsráðstefnan Ok, Bye verður haldin miðvikudaginn, 18. maí frá 9:00-12:30 í Hörpu sem hluti af Iceland Innovation Week. Ráðstefnan verður með óhefðbundnu formi þar sem fyrirlestrum og samtölum verður tvinnað saman við tónlist og sviðslistir.
🎊👉 Okkur tókst að fela það í meginmálinu í síðasta pósti en Grænland ætlar að bjóða heppnum lesendum miða á ráðstefnuna! Sendu okkur línu til að taka þátt og segðu okkur frá því sem þér finnst vera helstu tækifæri Íslands í loftslagsmálum. Tveir miðar verða dregnir út á mánudaginn.
Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru Davíð Helgason, frumkvöðull og loftslagsfjárfestir, Sarah Sclarsic stofnandi loftslagsvísisjóðsins Voyager, Salka Sigurðardóttir alþjóðleg loftslagssamningakona hjá bresku ríkisstjórninni, Marty Odlin forstjóri Running Tide, Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og fleiri.
Sveitastjórnarkosningar 2022
Á laugardaginn eru sveitarstjórnarkosningar og því ekki seinna vænna að kíkja aðeins á loftslags- og umhverfisstefnu þeirra flokka sem eru í framboði. Það er kosið í 64 (😅) sveitarfélögum en við ákváðum að einblína í þetta skiptið á fjölmennasta sveitarfélagið - Reykjavík.
Við skulum byrja á því að setja samhengið.
Síðustu tvö kjörtímabil hafa eftirfarandi flokkar verið með meirihluta í borgarstjórn:
2014-2018: Samfylkingin, Björt framtíð (🪦), Píratar og Vinstrihreyfingin - grænt framboð
2018-2022: Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstrihreyfingin - grænt framboð
Á þarsíðasta kjörtímabili, árið 2016, voru sett markmið um að Reykjavíkurborg verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og þá var einnig lögð fram aðgerðaáætlun til að ná því markmiði. Sú aðgerðaáætlun var uppfærð í byrjun árs 2021 og í aðgerðaáætlun 2021-2025 eru fimmtán meginaðgerðir sem miða að því að draga úr kolefnislosun um tæp 300 kt CO2-íg fyrir árið 2030:
15 mínútna hverfi - græn svæði, útivist og þjónusta í 15 mínútna göngu- eða hjólafæri
Græn borgarþróun innan skilgreindra vaxtarmarka og 80% uppbyggingar verði í þægilegri fjarlægð frá Borgarlínu
Orkuskipti alls staðar á landi og sjó.
Hjólreiðaborg á heimsmælikvarða
Borgarlína og betri almenningssamgöngur
Urðun verði hætt
Græn matarstefna
Grænn byggingariðnaður sem nái kolefnishlutleysi árið 2030
Gas í grjót - haldið áfram að þróa lausnir OR og Carbfix
Endurheimt votlendis aukin
Loftslagsskógar Reykjavíkur
Jarðefnaeldsneyti út árið 2025 - öllum jarðefnaeldsneytisbílum á vegum borgarinnar skipt út fyrir árið 2025
Flóðavarnir verði útivistarsvæði og garðar
Samstarf við atvinnulíf
Skömmu áður, í nóvember 2020, lagði Reykjavíkurborg fram Græna planið - sóknaráætlun borgarinnar til 2030 sem tekur saman helstu lykilverkefni og grænar fjárfestingar í borginni á þessum áratug. Stærstu verkefni Græna plansins eru:
Samgöngusáttmálinn - ríkið og Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes gerðu samning um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum til fimmtán ára.
Samkvæmt loftslagsbókhaldi Reykjavíkurborgar var losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi innan borgarmarka Reykjavíkur 534,6 kt CO2-íg árið 2020, eða 4,1 t af CO2-íg á íbúa á ári. Þar vega samgöngur langmest, 356,3 kt CO2-íg eða u.þ.b. 67% af heildarlosun.
Innan samgangna þá er það götuumferðin sem telur, 314,2 kt af CO2-íg árið 2020:
Þróun í losun vegna götuumferðar í Reykjavík var vaxandi frá 2016 til 2019:
Til að setja þetta í stærra samhengi þá var losun á landinu öllu vegna vegasamgangna 825 kt CO2-íg árið 2020 samkvæmt losunartölum Umhverfisstofnunar.
Það er ljóst að losun frá samgöngum er stærsta einstaka málið í Reykjavík. Gleymum því samt ekki að við þurfum að ná allri losun gróðurhúsalofttegunda í öllum flokkum niður í núll á sem stystum tíma. ⏱
🗳 Þar af leiðandi: Ekki gleyma að kjósa á laugardaginn!
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu á þá „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Stefnumál flokkana
Eftirfarandi flokkar eru í framboði til kosninganna á laugardaginn og hlekkirnir vísa á stefnumálin:
🚨 Athugið að eftirfarandi samantekt er engan vegin tæmandi en einfaldlega sú besta sem við gátum gert í þessum hjáverkum okkar. Við biðjumst fyrirfram afsökunar á öllum mistökum.
Áherslur stjórnmálaflokkanna í loftslags- og umhverfismálum fyrir Reykjavík eru mis nákvæmar þrátt fyrir að flestir flokkarnir hljómi í stórum atriðum sammála.
Píratar, Samfylking og Viðreisn eru með áberandi nákvæma stefnumálaskrá og lýsa því í smáatriðum hvernig þau sjá fyrir sér framtíð Reykjavíkur. Aðrir leyfa sér að tala í stórum og almennum hugmyndum. Miðflokkurinn virðist vera ósammála öllum í flestum stóru málanna. VG og Sósíalistaflokkurinn eru ekki með sérstaka stefnu fyrir Reykjavík, heldur bara fyrir landið í heild.
Stóru málin í loftslags- og umhverfismálum hjá flestum eru samgöngur og skipulagsmál - mál sem eru svo samtvinnuð að það er erfitt og óskynsamlegt að aðskilja þau. Á að hygla einum ferðamáta á kostnað annars eða eru allir ferðamátar jafnir? Á flugvöllurinn að vera eða fara? Hvað á að gera við Borgarlínuna og hvað á að kosta í strætó? Hversu langt á að ganga í vistgötum og grænum svæðum?
Viðreisn og Samfylking minnast sérstaklega á kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 (eins og núverandi áætlun borgarinnar stefnir að) og Samfylkingin vill ennfremur að borgin verði kolefnisjákvæð „þegar um fram sækir.“ Framsókn er eini flokkurinn sem vill að Reykjavík sé kolefnishlutlaus árið 2030 og eins yndislega og það hljómar þá er fátt í áherslum þeirra sem gefur til kynna að þau séu með raunhæfar áætlanir um hvernig því skuli náð.
Samgöngumál & skipulagsmál
Bíll og/eða virkir ferðamátar
Píratar er sá flokkur sem er skýrastur með að draga verði úr notkun bíla. Þau vilja að „bíllaus lífsstíll verði ekki jaðarsport heldur ákjósanlegur valkostur allra sem búa í Reykjavík,“ og að „samgönguinnviðir snúist fyrst og fremst um að flytja fólk fremur en bíla“, að „ekki verði farið í umferðaraukandi framkvæmdir“ og að „mislæg gatnamót [verði] gerð víkjandi“ (sem VG vill líka). Píratar setja skilyrði að „ný byggð í Keldnalandi rísi samhliða Borgarlínutengingu, ellegar verði bíllaus“ og fækka skuli bílastæðum og auka gjaldskyldu. Þau vilja líka „takmarka bílaumferð þegar slæm loftgæði ógna heilsu fólks“ og leggja til að „Reykjavík verði skilgreind sem 50 km hámarkshraðasvæði.“
Viðreisn talar einnig skýrt og segir að „í allri hönnun gatna í íbúðahverfum þurfa gangandi og hjólandi að vera í fyrirrúmi“ og „gangstéttir skulu liggja beggja vegna götunnar, vera órofnar og skapa þá upplifun að bílar sem þveri þær séu þar gestir en ekki öfugt.“
Samfylkingin vill að „hlutdeild einkabíla í umferð verði ekki meiri en 58% árið 2030“ og leggur til að „öll Kvosin milli Vonarstrætis og Tryggvagötu verði bíllaust svæði.“ Einnig: aukin gjaldskylda, stærri gjaldskyldusvæði og lengri gjaldtími.
VG vill „tryggja að vistvænir ferðamátar verði sjálfsagður valkostur borgarbúa“, að „sveitarfélög hafi forgöngu um að auglýsa störf án staðsetningar, stuðli að uppbyggingu fjarvinnukjarna og bjóði starfsmönnum sínum að nýta aðstöðuna“ og leggja „áherslu á fjölbreytta og vistvæna samgöngumáta.“
Sjálfstæðisflokkurinn talar um „frjálsa valkosti í samgöngum þar sem ólíkir faramátar vinna saman en ekki gegn hver öðrum.“ Flokkurinn leggur líka áherslu á að „styðja við aukna fjarvinnu og tryggja fjölgun vinnustaða í austurborginni“ og leggur sömuleiðis til breytilegan upphafstíma vinnudags á stærstu vinnustöðum borgarinnar.
Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru skýrir um að vilja óhindrað flæði umferðar án tafa og að koma eigi fyrir „mislægum gatnamótum á umferðamestu gatnamótununum,“ að ekki megi takmarka neinn samgöngumáta á kostnað annars eða þvinga fólk til að nota lausnir sem henta þeim ekki.
Þétting byggðar
Flestir flokkar vilja þéttingu byggðar og 15-mínútna hverfi en eru aftur misskýrir í áherslum sínum.
Samfylkingin talar skýrast: „Við eigum að byggja þétt en ekki þröngt.“ „Að þétta byggð, minnka umferð og gera hvern borgarhluta sjálfbærari er eitt af því mikilvægasta sem sveitarstjórnarstigið getur lagt að mörkum.“ Þétting byggðar er sömuleiðis markmið umhverfis-, skipulags- og samgöngustefnu Pírata í Reykjavík. Viðreisn vill að „áfram [skuli] unnið með þéttingu byggðar innan borgarinnar og byggt innan vaxtarmarka.“ VG vill „þétta byggð og fullbyggja skipulögð hverfi.“
Sjálfstæðisflokkurinn talar um vilja gera „fleiri borgarhverfi að svokölluðum 15 mínútna hverfum“ og að „skipuleggja ný hverfi samhliða því að þétta byggð innan hverfa sem hafa til þess svigrúm, í sátt við íbúa og umhverfi.“ Sömuleiðis ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að „efla verslunarkjarna innan borgarhverfa“ og „bjóða stofnstyrki til þeirra sem hyggjast hefja starfsemi í auðum rýmum.“ Framsókn vill bæði að „15-mínútna hverfi sé þungamiðja skipulags“ og vilja „þétta byggð þar sem innviðir leyfa.“
Miðflokkurinn er eini flokkurinn sem er mjög skýr um að vilja „draga úr „þéttingu byggðar“ áherslum“, vill íbúðahverfi með fjölbreyttum húsategundum (en minnist samt sérstaklega á úthlutun einbýlishúsalóða). Flokkur fólksins er á svipaðri línu, „sjálfsagt er að þétta byggð en …“
Önnur samgöngumál
Borgarlína
🎬 Hefja: Viðreisn
🏎 Hraða: Píratar, Samfyklingin, VG, Framsókn
👎 Hafna: Miðflokkurinn, Ábyrg framtíð
🤔 Óljóst: Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Flokkur fólksins
Strætó:
Frítt: Sósíalistaflokkurinn, Flokkur fólksins, Miðflokkurinn (í 3 ár), Píratar (fyrir börn upp að 18 ára aldri og á gráum dögum þegar loftgæði stefna í að verða hættuleg), Viðreisn (á gráum dögum)
Ódýrt: VG (fyrir eldra fólk)
Aukið fjármagn „strax“: Samfylkingin
Samfylkingin vill ennfremur „leggja [...] áherslu á að við endurnýjun á vögnum Strætó verði nýir vagnar drifnir af endurnýjanlegum orkugjöfum og að þessari endurnýjun verði flýtt einsog kostur er.“
Næturstrætó 🪩: Samfylkingin, Framsókn, VG, Píratar
Hjólreiðar:
Framsókn vill „öfluga uppbyggingu hjóla- og göngustíga“ og Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að innleiða hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar „af metnaði.“ Píratar vilja „hjólahraðbrautir milli hverfa og sveitarfélaga,“ og beina, aðskilda og óhindraða hjólastíga. Samfylkingin, Píratar og VG vilja setja vetrar- og vorþjónustu í forgang en Viðreisn leggur til hjólastíg milli Keflavíkur og Reykjavíkur.
Sundabraut
👍 Með: Flokkur fólksins („algjört forgangsmál“), Framsókn (vill „hraða gerð Sundabrautar“ ), Sjálfstæðisflokkurinn (ætlar að „hefja uppbyggingu Sundabrautar strax á nýju kjörtímabili“), Viðreisn („styttir leiðir fyrir alla samgöngumáta“), Ábyrg framtíð (ef hún færi í gegnum Viðey)
🤷♀️ Volg: Samfylkingin, Píratar („Við útfærslu stórra stofnvegaframkvæmda, svo sem Sundabrautar, sé brugðist við með mótvægisaðgerðum til að koma í veg fyrir umferðaraukningu“), Miðflokkurinn („áhugaverður kostur sem ber að halda áfram að vinna“)
🤔 Óljóst: VG, Reykjavík, besta borgin, Sósíalistaflokkurinn.
Viðreisn vill að framkvæmdin sé fjármögnuð með „með beinni gjaldtöku á bílaumferð“
Göngugötur
Viðreisn vill „búa til almenningsgarð á Skólavörðuholti“
Viðreisn og Samfylking: Laugavegur að göngugötu upp að Barónsstíg
Viðreisn og Samfylking: Snorrabraut „verði umbreytt í breiðstræti milli stranda.“
Framsókn „vill skoða það að byggja yfir Austurstræti.“
Flugvöllurinn:
Reykjavík, besta borgin er bara með eitt stefnumál: að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni, ný miðborg myndist þar sem leysi öll vandamál borgarinnar á einu bretti. Mjög skemmtileg mynd af fyrirhuguðu borgarskipulagi fylgir en undarleg mál í aðdraganda kosninga eins og ásakanir um falsaðar undirskriftir auka ekki trúverðugleika framboðsins.
🛬 Í Vatnsmýrinni: Miðflokkurinn og Ábyrg framtíð (og helst bæta við millilandaflugi)
🛫 Úr Vatnsmýrinni: Viðreisn, Píratar („sem allra fyrst“), Samfylkingin („víki árið 2032 í samræmi við ákvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040“), Reykjavík, besta borgin
🤔: Sjálfstæðisflokkurinn, Flokkur fólksins
Hringrásarhagkerfi og úrgangsmál
Samfylkingin talar um að „Álfsnes er spennandi sem vettvangur hringrásargarðs fjölbreyttra fyrirtækja“ og VG fer fögrum orðum um „hringrásarhjarta í Álfsnesi.“ Píratar vilja leigja og lána frekar en eiga og vilja styðja við t.d. áhaldaleigur á bókasöfnum og félagsmiðstöðvum. Framsókn vill að „Reykjavík sé leiðandi á landsvísu í málefnum hringrásarhagkerfisins“ en Viðreisn vill „efla [...] samstarf við einkaaðila þegar kemur sorpmálum og bjóða út stóran hluta þjónustunnar.“
Innkaupastefna
Samfylkingin vill að „krafa verði gerð um að innkaup borgarinnar verði umhverfisvottuð og miði að því að kolefnisspor þeirra verði sem minnst“ og VG vill „tryggja að sveitarfélög séu vistvæn í kaupum á vörum og þjónustu.“
Menntastefna í umhverfis- og loftslagsmálum
Samfylkingin leggur til að „efnt verð[i] til vitundarvakningar um loftslagsmál í öllum grunnskólum í samstarfi við einkaaðila, frjáls félagasamtök og borgarstofnanir með það að markmiði að virkja nemendur og kennara til aðgerða við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar.“ VG vill „stórauk[a] fræðslu til Reykvíkinga um umhverfismál, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið“ þar á meðal „fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál í leik- og grunnskólum“ og koma á „Vísindaveröld fyrir alla aldurshópa í Reykjavík þar sem hægt er að fræðast um heiminn og náttúruna og [efla] þannig vísindalæsi.“
Réttlát umskipti
VG vill tryggja tryggja réttlát umskipti og að öll áætlunargerð sé rýnd með „mælikvörðum velsældar- og kynjasjónarmiða og umhverfisáhrifa“. Samfylkingin talar um að „loftslagsmál [séu] í grunninn spurning um jöfnuð“ og að „ávallt ber[i] að ganga úr skugga um að þær aðgerðir sem ráðist er í bitni ekki á þeim sem verst standa.“ Píratar vilja tryggja „jafnrétti milli núlifandi og komandi kynslóða“ og við „útfærslu á gjaldtöku skal miða að því að þau borgi sem menga.“
Annað sem okkur fannst áhugavert
Framsókn og Píratar styðja og hvetja til matjurtaræktunar í hverfum borgarinnar. Samfylkingin vill að „leikskólum og félagsmiðstöðvum eldri borgara standi til boða að rækta grænmeti“ og „halda áfram að fjölga matjurtagörðum fyrir fjölskyldur í borginni eftir því sem eftirspurn eykst.“
Viðreisn talar um sölu á einingum til einkaaðila (Malbikunarstöðin Höfði, einingum Orkuveitunnar sem starfa á samkeppnismarkaði, valda þætti í rekstri Sorpu, stærri hlut í akstri Strætó, bílastæðahús og innheimtu bílastæðagjalda). Miðflokkurinn er líka spenntur fyrir því að selja malbikunarstöðina Höfða og að setja sorphirðu og stafræna umbreytingu í útboð.
Sjálfstæðisflokkurinn vill „tryggja lægri álögur fyrir umhverfisvænan byggingaiðnað.“
Píratar vilja að „grænkerafæði sé valkostur í öllum mötuneytum á vegum sveitarfélagsins.“
Samfylkingin vill „styðja við kaupmanninn á horninu í skipulagi borgarinnar og matjurtagarða í hverfunum og gera ráð fyrir matarmörkuðum með ferskvöru, kaffihúsum og veitingastöðum innan allra hverfa eins og við verður komið“
Samfylkingin vill að „virkjanir Orkuveitunnar verði sporlausar gagnvart kolefnisútblæstri og brennisteinsvetni fyrir árið 2030.“
VG vill ráða „borgarlandverði sem hafa það hlutverk að sinna fræðslu og eftirliti með borgarlandinu, stígum og náttúruvernd.“
VG vill „friðlýsingu eyjanna á Kollafirði.“
VG vill að við „gerum ráð fyrir geymslu og miðlun vistvænna orkugjafa innan sveitarfélaga“
VG vill að aðeins sé farið í vindorkuöflun með „náttúru- og umhverfisvernd að leiðarljósi.“
Viðreisn: „Miklubraut á að setja í stokk upp að Grensásvegi.“
🗳 Að lokum: Ekki gleyma að kjósa á laugardaginn!