Nr 18: Running Tide, Transition Labs og hvar eru rafvirkjarnir á norðausturlandi?
Loftslagsráðstefnan Ok, bye var virkilega skemmtileg og við þökkum Eddu, Melkorku og öðrum snillingum hjá Iceland Innovation Week fyrir frumlegan og hvetjandi atburð.
Þetta helst
🌊 Davíð Helgason, stofnandi Unity, hefur stofnað Transition Labs ásamt Kjartani Erni Ólafssyni, frumkvöðli og tæknifjárfesti. Transition Labs hyggst leita uppi framúrskarandi erlend loftslagsverkefni, aðstoða við að koma þeim í starfsemi á Íslandi og auðvelda þeim að skala fyrirtækin upp í rekstrarhæfa stærð. Running Tide frá Maine er fyrsta verkefnið sem hefur uppbyggingu á Íslandi með aðstoð Transition Labs en þau fanga CO2 úr andrúmsloftinu með því að rækta þörunga í stórum stíl á sérhönnuðum baujum í úthafinu. Vísir tók viðtal við Marty Odlin, stofnanda og forstjóra Running Tide.
(Rétt er að taka fram að Jóhann vinnur hjá Transition Labs, Kristinn er framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi og Guðfinnur vinnur hjá Running Tide í sumarstarfi)
⛰️ Snæfellsjökull mun hverfa á næstu áratugum ef við höldum áfram á sömu braut.
🙅♂️ Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur lagt fram stjórnarfrumvarp sem bannar leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis (= olía) í efnahagslögsögu Íslands.
🔌 Skortur á rafvirkjum á norðausturhorni landsins virðist seinka uppsetningu á hleðslustöðvum.
🌲Gróðrarstöðvar landsins eru fullnýttar og því er ekki hægt að bæta við nýjum verkefnum í skógrækt fyrr en 2024. Í ár stefnir í að sex milljónir plantna verði afhentar til gróðursetningar, og það lítur út fyrir að skógræktin nái ekki að uppfylla sjö til átta milljóna plantna þörf næsta árs. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir að rækta þurfi meira af plöntum hér á landi svo markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040 geti orðið að veruleika.
📈Áburðarverð hefur næstum tvöfaldast á þessu ári og margir sauðfjárbændur keyptu engan innfluttan áburð. Sumir bændur bera ekkert á en aðrir gera tilraunir með landbúnað með lífrænum búfjáráburði. Það er eflaust hægt að læra ýmislegt af þessum skorti og mikil tækifæri eru til nýsköpunar í geiranum, hvort sem það er með breyttum landbúnaðaraðferðum eða grænni innlendri framleiðslu á áburði. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur skipað hóp sem á að huga sérstaklega að fæðuöryggi, verðlagi og hagsmunum neytenda og bænda.
🚌 Auðvitað væri kúl að fá lest til Keflavíkur en það væri fínt að byrja á því að laga Strætó:
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu á þá „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Annað sem við lásum
💰First Movers Coalition bætti við sig fimmtíu nýjum fyrirtækjum, átta nýjum ríkisstjórnum (ekki Íslandi) og tveimur nýjum geirum (álframleiðslu og kolefnisföngun). Samtökin voru stofnuð á COP26 af World Economic Forum undir leiðsögn John Kerry en meðlimir gera skuldbindingar um að nota kaupmátt sinn til að fjárfesta í framsækinni grænni tækni í sex geirum og greiða því veginn með því að búa til nýja markaði. Meðal meðlima eru stórfyrirtæki eins og Apple, Ford, Airbus, Vattenfall, Microsoft, A.P. Møller – Mærsk, Amazon, HeidelbergCement og fleiri.
🚜 Framfarir í landbúnaðartækjum hafa leitt til þyngri landbúnaðarvéla en nú eru tækin líklega orðin of þung svo greina má aukna þjöppun í dýpri jarðvegslögum og skemmdir á rótarkerfum.
🇦🇺 Ástralir kusu nýja ríkisstjórn sem er líklegri til að breyta stefnu landsins í loftslagsmálum til hins betra.
🥵 Hækkandi næturhiti veldur því að fólk á erfiðara með svefn samkvæmt rannsókn á svefngögnum 47.000 manns úr 68 löndum. Svefnleysi per gráðu af hitnun virðist ekki bitna jafnt á öllum en konur, eldra fólk og þau sem búa í fátækari löndum eru líklegri til að sofa verr.
❓Við erum líklegri til að muna eftir stóratburðum og það gæti valdið því að við kaupum ekki rafbíla því við höldum að við þurfum meiri drægni en raun ber vitni.
📉 Fyrsti ársfjórðungur 2022 var þriðji ársfjórðungurinn í röð þar sem samdráttur var í losun CO2 í Kína, aðallega vegna mikils samdráttar í losun vegna framleiðslu á sementi.
💸 Stand.earth og 350.org bjuggu til gagnagrunn yfir stofnanir sem hafa skuldbundið sig til að selja jarðefnaeldsneytisfjárfestingar sínar.