Nr 19: „Olía okkar tíma“
Þetta helst
💰Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, segir að tryggja þurfi að beinn og óbeinn arður af orkuauðlindum renni til þjóðarinnar, t.d. með því að taka upp sanngjarnt auðlindagjald, og mögulega væri hægt að leggja slíkt gjald á vindorku án þess að hæga á þróun orkugjafans. Hún ber tækifærið við stofnun orkusjóðs Norðmanna, að „græna orkan [sé] sannarlega olía okkar tíma.“
💡Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að skipta megi eftirspurn eftir grænni raforku í fimm flokka og að Landsvirkjun muni forgangsraða fyrstu þremur flokkunum:
Aukin almenn raforkunotkun í samfélaginu og eftirspurn til innlendra orkuskipta
Stuðningur við aukna stafræna vegferð (t.d. gagnaver) og aðra nýsköpun sem krefst orku.
Framþróun núverandi stórnotenda.
Eftirspurn frá nýjum stórnotendum í málmiðnaði og hrávöruvinnslu
Útflutningur á orku með rafeldsneyti eða sæstreng.
Hörður ítrekar stefnu Landsvirkunar um að selja ekki raforku til rafmyntavinnslu og segir að „markaður fyrir útflutning á rafeldsneyti mun án efa verða til í náinni framtíð, en [sé] þó ekki enn við sjónarrönd.“
🌑 Stundin fjallar ítarlega um ljósvist á Íslandi og að við þurfum að þétta byggð á skynsamlegan hátt svo að fólk búi ekki í myrkri. Mjög góðar skýringarmyndir og merkilegt að ljósvist sé ekki í byggingarreglugerð.
🚗 Á fyrstu fimm mánuðum ársins voru 9.697 nýskráðir bílar og bifhjól og af þeim gengu 26% fyrir rafmagni, 40% fyrir blönduðum orkugjöfum og 34% fyrir jarðefnaeldsneyti samkvæmt tölfræði Samgöngustofu. Það þýðir bæði að:
u.þ.b. 66% af nýskráningum voru vistvæn farartæki (en mjög misvistvæn)
3.259 nýir jarðefnaeldsneytisbílar hófu akstur og munu verða á götunum næstu áratugi.
Heildarupphæð bílalána í mars var sú hæsta frá því að mælingar hófust árið 2013. Samkvæmt Stjórnarráðinu hafa 27,5 milljarðar hafa verið veittir í skattaívilnanir vegna vistvænna bíla á árunum 2012-2022. Á því tímabili hafa u.þ.b. 18.700 vistvænir bílar verið nýskráðir en rúmlega 68.000 jarðefnaeldsneytisbílar.
Jökull Sólberg hefur fjallað um ívilnanir vistvænna bíla og fært sannfærandi rök fyrir því að ganga lengra í því að beita ívilnunum enn harðar í átt að rafbílum (fella niður ívilnanir á tengiltvinnbílum).
👩🔬Running Tide hefur leigt húsnæði á Akranesi af Breiðinni þróunarfélagi og útgerðarfélaginu Brim þar sem á að stunda rannsóknir og framleiðslu á þörungum til kolefnisbindingar í sjó. Auk þess er áætluð starfsemi á Grundartanga.
(Kiddi er framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi. Guðfinnur vinnur hjá Running Tide í sumar og Jóhann vinnur hjá Transition Labs)
📷 Magnaðar myndir sýna hversu mikið Skaftafellsjökull hefur hopað frá 2012.
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu þá á „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Annað sem við lásum
🇫🇮 Finnska þingið samþykkti ný lög þar sem Finnland skuldbindur sig til kolefnishlutleysis árið 2035 og að fanga meira en þau losa árið 2040. Eftir að lögin verða undirrituð af forseta landsins þá verður Finnland fyrsta landið í heiminum til að setja markmið um kolefnisföngun í lög. Finnland er vissulega skógi vaxið en önnur skógivaxin lönd eins og Bútan og Súrínam fanga nú þegar meira en þau losa.
🌳 Tré eru ódýr leið til að fanga kolefni úr andrúmsloftinu en Zeke Hausfather, einn af höfundum nýjustu IPCC skýrslunar, líkir þeim við loftslags „snooze“ takka þar sem líklegt er að öll föngunin berist aftur í andrúmsloftið eftir nokkra áratugi. Best er því að binda kolefni á varanlegri hátt, t.d. í stein eins og Carbfix hefur gert síðustu ár. Við þurfum að hafa byggt upp getuna til að fjarlægja u.þ.b. 6 milljarða tonna af CO2 á ári úr andrúmsloftinu árið 2050 ef við ætlum að halda hlýnun undir 1,5°C. Á næstu 80 árum gætum við þurft við að fanga 600 milljarða af CO2 úr andrúmsloftinu. Líklegt er að í allra besta lagi muni gróðursetning trjáa aðeins aðeins anna helmingnum af þeirri föngun.
🔋 Álfyrirtækið Hydro og rafhlöðuframleiðandinn Northvolt opnuðu stærstu rafhlöðuendurvinnslu Evrópu í Fredriksstað, Noregi. Verksmiðjan mun ná að endurvinna 12.000 tonn af rafhlöðupökkum (~25.000 rafbílarafhlöður) og endurnýta 95% af plastinu, koparnum, álinu og svarta gumsinu (nikkel, kóbalt, mangan og litíum) sem litíum rafhlöður eru búnar til úr. Verksmiðjan var staðsett í Noregi þar sem hröð orkuskipti í samgöngum hafa leitt til þess að þar úreldast nú fleiri rafbílar en annars staðar.
😎 Sólarsellur sem fljóta ofan á lónum vatnsaflsvirkjana gætu verið góð lausn til raforkuframleiðslu, sérstaklega í Norður og Suður Ameríku og Afríku. Kælingin frá vatninu eykur nýtni, dregur mögulega úr uppgufun og auðvelt er að tengja slík sólarraforkuver við dreifikerfi í gegnum innviði sem eru nú þegar til staðar. Í dag er uppsett rafafl úr fljótandi sólarsellum metið sem 3GW en ef 10% af yfirborði allra virkjunarlóna yrði þakið fljótandi sólarsellum þá yrði rafaflið mögulega 4.000 GW.
🤯 Það var ótrúlega flókið að laga neðanjarðarháspennulínur í Los Angeles árið 1989.