Nr 21: 275.193 bifreiðar í umferð á bíllausa daginn
Í gær, 22. september var bíllausi dagurinn. Þá var frítt í strætó (þó það hefði verið illa auglýst), Hopp felldi niður startgjaldið og ZOLO bauð fyrstu 20 mínúturnar af ferðinni. Tilvalið að endurskoða daglegar ferðavenjur enda aðeins rétt rúmlega 7 ár í að nýskráningu fólksbíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði hætt.
Í gær voru 275.193 bifreiðar af ýmsum toga í umferð samkvæmt tölfræði frá Samgöngustofu og þar af ganga ennþá 82,6% þeirra fyrir jarðefnaeldsneyti.
Ágætis gangur er í nýskráningum á rafbílum sem af er ári en slíkar bifreiðar eru engu að síður aðeins 24% af nýskráðum bílum, 63% ef við slengjum saman bifreiðum sem nota raforku og þeim sem nota blandaða orku, en hversu umhverfisvænar þær vélar eru er í besta falli óljóst þar sem líklegt er að eldsneytisnotkunin sé mun hærri en birtar tölur gefa til kynna.
Í febrúar sendi Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fyrirspurn á Guðlaug Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra varðandi aðgerðir til að fækka bílum. Svarið birtist í þarsíðustu viku og þar kemur fram að 1.200 milljónir hafi verið felldar niður í VSK á hinum ýmsu tegundum af reiðhjólum og rafmagnsbifhjólum og að fyrirtæki og stofnanir hafi haft heimild til að gera samgöngusamninga við starfsfólk frá árinu 2014, en slíkir samningar fela í sér að skattfrjálsar greiðslur til starfsfólks gegn skuldbindingu um að viðkomandi nýti virkan ferðamáta til og frá vinnu.
Samkvæmt svarinu má vænta skýrslu frá starfshópi á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála, sér í lagi til að stuðla að frekari fjölgun hreinorkubíla.
Athygli vekur líka að ráðuneytið setur saman rafmagns- og tengiltvinnbíla í flokk „umhverfisvænna fólksbíla.“ Arnar Þór Ingólfsson hjá Kjarnanum er ósammála þessari nálgun, talar um ábyrgðina sem fylgir orðum og að „það [séu] ekki til neinir umhverfisvænir bílar. Bílar eru skaðlegir fyrir umhverfið, óháð orkugjafa, vegna þeirra umhverfisáhrifa sem verða til við framleiðslu þeirra, notkun og förgun.“
„Ég er þeirrar skoðunar að orkuskiptin muni á endanum fá okkur til að endurhugsa ferðavenjur okkar. Það er ekkert endilega skynsamlegt að nálgast þessa mikilvægu samfélagsbreytingu með hugarfari dísiltrukksins. Orkuskiptin, og loftslagsmál í heild sinni, snúast líka um ábyrgð og hegðunarmynstur,“ segir Ottó Elíasson, rannsókna- og þróunarstjóri hjá Eimi.
Það virðist samt ekki ennþá vera raunin og fólksbílum hefur fjölgað um 7,13% síðan 2018 svo ef markmiðið er að fækka fólksbílum þá þarf að prófa einhverjar nýjar aðferðir. Jarðefnaeldsneytisfólksbílum fækkar samt - bæði í magni og per íbúa 17 ára og eldri.
Það er ólíklegt að þeim fækki nógu hratt til að við náum markmiðum okkar og við þurfum að spýta enn frekar í lófana og skoða alla mögulega til að breyta samgöngum.
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu þá á „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Þetta helst
🏪 Landsnet hefur stofnað dótturfélag til að koma á heildsölumarkaði fyrir raforku á Íslandi. Katrín Olga Jóhannesdóttir verður framkvæmdastjóri en slíkur heildsölumarkaður mun koma í staðinn fyrir handvirkar orkusölur á milli orkufyrirtækjanna. Guðmundur I. Ásmundsson, forstjóri Landsnets og stjórnarformaður nýja félagsins segir að þetta muni auka gagnsæi í verðum og gera orkuframleiðendum auðveldara með að meta hvort fjárfestingar í nýjum orkuinnviðum séu hagkvæmar.
😡 Stundin fjallar um urðunarbrot Terra og sveitafélagsins Bláskógabyggðar en mikið magn af plastúrgangi frá grænmetisræktendum í Bláskógabyggð má finna á ólöglegum urðunarstað innan svæðis við Brúará sem er á náttúruminjaskrá. Einnig má sjá spilliefni, málma og annars konar úrgang á haugnum. Sveitarfélag Bláskógabyggðar rekur urðunarstaðinn en sótti einungis um starfsleyfi fyrir honum sama dag og blaðamaður Stundarinnar ræddi við Kristófer A. Tómasson, sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs. Atvik sem þetta skerðir traust almennings til lykilaðila í endurvinnslu á Íslandi, og það er brýnt að Terra og Bláskógabyggð bregðist almennilega við.
💨 Zyphyr Iceland, dótturfélag norska vindorkufyrirtækisins Zephyr, er með áform um þrjá vindmyllugarða á Íslandi í mati á umhverfisáhrifum (Brekka í Hvalfjarðarsveit 50MW, Mosfellsheiði 200MW, Klaustursel á Norð-Austurlandi 250MW) en er samtals að skoða 10 valkosti á Íslandi. Íbúar í Hvalfjarðarsveit hafa miklar áhyggjur af umhverfisáhrifum og sjónmengun garðins sem á að rísa á Brekkukambi. Arnfinni Jónassyni talsmanni íbúa finnst „galin hugmynd“ að reisa 250m háar vindmyllurnar í 650m hæð yfir sjávarmáli og að þær muni sjást úr nánast öllum Borgarfirðinum, frá Glym og yfir á Þingvelli. Ketill Sigurjónsson, eigandi Zephyr Iceland, vekur athygli á því að „aukna raforku skorti á Íslandi innan tíðar“ og telur að vindorka sé bæði ódýrari og auðveldari í byggingu en vatnsafls- og jarðvarmaverkefni. Ef áformin ganga eftir er raunhæft að vindmyllugarðurinn verði tilbúinn eftir 6-7 ár. Þessa dagana virðumst því vera betri í því að fella vindmyllur heldur en að reisa þær.
💩 Veitur hafa dælt milljónum tonna af óhreinsuðu skólpi út í sjóinn við Faxaskjól í Reykjavík á meðan viðgerð á búnaði í dælustöðinni stendur yfir. Engin skilti voru sett upp til að vara gesti Nauthólsvíkur við. Upplýsingafulltrúi Veitna getur ekki útskýrt skiltaleysið og talar um að það þurfi „pólitíska sátt [..] og pening“ til að setja upp nýtt kerfi sem þyrfti ekki að dæla óhreinsuðu skólpi út í hafið í hvert skipti sem þarf viðgerðir. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kallar eftir úrbótum. Stöðuskýrsla um fráveitumál fyrir árið 2020 kom út í sumar en lítið hefur breyst síðan árið 2014 og ástandið er ennþá lélegt. Við fjölluðum um stöðuskýrsluna frá 2018 fyrr á árinu.
🥇 Ómar Ragnarsson hlaut viðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir náttúruverndarstarf sitt í gegnum tíðina. „Íslensk náttúra væri svo miklu fátækari ef ekki væri fyrir eldhuga sem eru tilbúnir að leggja allt í sölurnar fyrir hana. Ég eins og margir Íslendingar erum svo heppin að hafa átt Ómar sem glugga inn í hluti sem eru svo ótrúlega mikilvægir en fáir sinntu. Einstaklingar skipta máli og skýrt dæmi um það, er Ómar Ragnarsson,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
🚨 Við erum enn að byggja mannvirki sem eru fjandsamleg gangandi vegfarendum:
Fréttir frá loftslagslistanum
Marea hlut Bláskelina, fyrir þróun á náttúrulegri filmu úr þörungahrati sem er spreyjað á matvæli og ver þau svo geymsluþol eykst.
Grænland heldur úti íslenska loftslagslistanum, lista yfir loftslagstæknifyrirtæki á Íslandi. Sendið okkur ábendingar um fréttir eða fyrirtæki.
Annað sem við lásum
🌍 Yvon Chouinard, stofnandi útifatafyrirtækisins Patagonia, heldur áfram að „walk the walk, talk the talk.“ Í síðustu viku gáfu hann og fjölskylda hans frá sér öll hlutabréf fyrirtækisins, verðmetin á $3 milljarða (~427 milljarðar ISK). Öll hlutabréf með atkvæðisrétt (2%) eru nú í Patagonia Purpose Trust sem sér um að halda utan um gildi félagsins. Sjálfseignastofnunin Holdfast Collective fékk restina af bréfunum (98%) að gjöf og mun nota allan ágóða Patagonia (~$100m á ári / 14 milljarðar ISK á ári) til að leysa úr þessari loftslagskrísu sem við erum búin að koma okkur í. Gjöfin virðist ekki hafa neinn augljósan skattaágóða og Chouinard fjölskyldan þarf að líklega að borga ~$17,5m í skatta fyrir gjörninginn. Tilkynningu Yvon má finna hér. Blaðamaðurinn Tom Brockaw segir sögur af Yvon og þar á meðal má finna frásögn af heimsókn til Íslands þar sem Yvon virðist ekki hafa haft mikla þolinmæði fyrir íslensku viðskiptafólki:
„On one trip, I remember a couple of Icelandic businessmen eager to connect to Yvon. He was not much interested, so they said, “Is there anything we can do for you?” He said, “Yeah, can you change my leftover Icelandic money?” And with that, he handed them the equivalent of a dollar in change.“
📈 Salesforce hefur stofnað Net Zero Marketplace, markaðstorg þar sem fyrirtæki geta auðveldlega keypt kolefnisjöfnunarheimildir. Samstarfsaðilar Salesforce að markaðstorginu eru Climate Impact Partners, Cloverly, Lune, Pachama, Native, Respira International, South Pole, Calyx Global, Sylvera og CO2.com.
?Time ákvað að bjóða upp á svipaða þjónustu.
🚘 Aðförin gegn einkabílnum hérlendis hefur samt ekki náð því stigi að aðgerðasinnar séu farin að hleypa úr dekkjunum á jeppum. „Það er ekki þú heldur bíllinn þinn“ segir Tire Extinguishers hópurinn í Osló, Noregi.
🇫🇴 Færeyingar ætla sko ekki að láta okkur vinna „menga mest miðað við höfðatölu“ keppnina.
🍊Það er munur á því fyrir loftslagið að kaupa kolefnisjöfnun og að fjarlægja kolefni úr andrúmsloftinu: