Nr 22: Hvar og hvernig framleiðum við orku?
Kjarninn fjallaði í vikunni um minni virkjanir undir 10MW sem falla ekki undir rammaáætlun og þurfa því ekki samþykki Alþingis. Margar þeirra eru ansi nálægt 10MW og umhverfisáhrifin því nálægt því að vera jafn mikil og hjá stærri virkjunum en framkvæmdaferlið er ólíkt. Auðvelt er að spyrja sig hvort þær séu þess virði, sérstaklega ef raska á óspilltu landsvæði.

Þetta er ótrúlega flókið umræðuefni og erfitt að komast að góðri niðurstöðu.
Það eru gífurleg tækifæri í því að vera sjálfbær varðandi orku og klára orkuskipti á landi og hafi. Það er spennandi að þurfa ekki að flytja inn olíu til að ferðast um náttúruna, veiða fisk úr sjónum og fljúga milli landshluta en staðan í dag er sú að eftirspurn eftir raforku er meiri en framboðið og við þurfum að framleiða meiri raforku ef við viljum stíga inn í slíka kolefnishlutlausa framtíð.
Það er hinsvegar ekki augljóst að við þurfum allar þær 24.000 GWst sem orkufrekasta sviðmynd Samorku úr „grænbókinni“ - skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum sem kom út fyrr á árinu. Það er ekki traustvekjandi fyrir vinnubrögð þeirrar skýrslu þegar Vilhjálmur Egilsson, formaður starfshópsins er farinn að leiða fundi fyrir hagsmunaaðila í vindorkuframleiðslu og leggja áherslu á orkufrekustu sviðsmyndina. Það minnir óþægilega mikið á algengt ástand í Bandaríkjunum þegar starfsmenn ríkisstofnana og eftirlitsaðila fara að vinna fyrir hærri laun hjá fyrirtækjunum sem þau höfðu eftirlit með (þótt líklega þiggi Vilhjálmur ekki laun fyrir þessa vinnu.)
Við erum þjóð sem er brennd af Kárahnjúkavirkjun, þar sem náttúra var lögð undir stóra orkuframkvæmd sem síðan var að mestu leiti seld stóriðju á mjög lágu verði. Það er því undarlegt að framkvæmdaraðilar vindorkufyrirtækja vandi sig ekki betur við það að nálgast samfélögin þar sem þau vilja reisa orkuver. Umfjöllun Kjarnans um einn slíkan fund er vissulega mjög hlutdræg en augljóst er að hægt hefði verið að eiga nærgætnara samtal við ábúendur svæðanna sem munu búa nálægt vindorkuverunum. Orkufyrirtækin þurfa að leggja hart að sér til þess að vinna sér inn traust þjóðarinnar og sannfæra okkur um að vandað verði til verka og að orkan muni skila sér í betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.
Það er óraunhæft að ná 100% sátt um allar orkuframkvæmdir en við þurfum að setja okkur skýra stefnu sem þjóð:
Í hvað ætlum við að nota raforkuna og hvers konar orkuframleiðslu viljum við sjá?
Hvaða landsvæði ætlum við að halda ósnortnum um ókomna framtíð?
Hvernig getum við verðlaunað þau sem taka við orkuframleiðslu í bakgarðinn sinn?
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu á þá „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Þetta helst
🚨Níu þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar þar sem lagt er til að að Alþingi lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Kallað er eftir uppfærðri aðgerðaáætlun með skilgreindum, tímamerktum og fjármögnuðum aðgerðum. „Kórónuveirufaraldurinn þrýsti stjórnvöldum út í yfirgripsmiklar og kostnaðarsamar aðgerðir á mettíma. Tími faraldursins sýndi að stjórnvöld geta brugðist hratt og vel við neyðarástandi í takt við nýjustu upplýsingar og álit sérfræðinga á hverjum tíma. Síðustu ár hafa stjórnvöld um allan heim sýnt að þau geta brugðist hratt við ef þau vilja, þau hafa bara ekki viljað það til þessa á sviði loftslagsmála.“
💰Orkuveita Reykjavíkur ætlar í 50 milljarða króna hlutafjáraukningu inn í Ljósleiðarann og Carbfix samkvæmt fjárhagsspá fyrir árin 2023-2027. Áætlað er að Carbfix verji um 40 milljörðum króna í uppbyggingu förgunarstöðva fyrir CO2 og í frekari rannsóknir. Carbfix hlaut í sumar 16 milljarða króna styrk frá Nýsköpunarsjóði ESB til uppbyggingar á mótttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda Terminal í Straumsvík. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hefur einnig sagt upp störfum eftir 12 ára starf.
💨 Ofsafengið veður í september olli því að rafmagn fór af hálfu landinu, allt frá Blöndu til Hafnar í Hornafirði. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets bendir á 50 ára gamla byggðalinu sem grunnorsök. Úrbætur eftir óveðrið 2019 hafi tryggt að fjarskipti héldust uppi en Jón Svanberg Hjartarson, fagstjóri aðgerðarmála hjá almannavörnum segir engu síður „alvarlegt mál þegar hálft landið verði rafmagnslaust.“ Landsnet tók nokkrum dögum síðar Hólasandslínu í notkun, en hún gerir kleift að afhenda um 30MW af rafmagni á Eyjafjarðarsvæðinu. Línan liggur frá tengivirki á Hólasandi í Þingeyjarsýslu, 72 kílómetra leið með loftlínu og jarðstreng, að Rangárvöllum við Akureyri.

🏅Neytendastofa hefur bannað fyrirtækjunum Norðanfiski og Fisherman ehf að segja að afurðir þeirra séu úr vistvænu sjóeldi eða segja að framleiðslan sé vistvæn, umhverfisvæn og sjálfbær. Nú þegar Staðlaráð hefur gefið út tækniforskrift að kolefnisjöfnun þá er spurning hvort Neytendastofa þurfi að fara að skoða markaðsetningu fyrirtækja sem hampa kolefnisjöfnun án þess að kolefnisjöfnunin sé vottuð?
🏆Sjóvá hlaut verðlaun frá Samtökum atvinnulífsins fyrir umhverfisframtak ársins 2022 fyrir fjarskoðunarlausnina InnSýn og að hvetja til viðgerða á framrúðum. Saman metur Sjóvá að lausnirnar hafi dregið úr losun sem samsvarar 30t CO2íg á árunum 2020-2021. Allur samdráttur er góður og í samhengi þá var samanlögð losun Sjóvá á árunum 2020-2021 362,3t CO2íg, svo líklega er hægt að hugsa um þetta sem rúman 7% samdrátt sem er nokkuð gott. Það væri áhugavert að sjá aðrar tilnefningar til verðlaunanna því það er klárlega smá „notum papparör“ lykt af því að setja límmiða á framrúður þegar fiskiskip losa 510.000 t CO2 íg á ári, jarðvarmavirkjanir losa 179.000 t CO2íg á ári og mengandi iðnaður losar 1.986.000 t CO2íg á ári.
Fréttir frá loftslagslistanum
GreenBytes hefur sótt 1m EUR (140m ISK) pre-seed fjármögnun frá Crowberry Capital, APX og þýskum englafjárfestum. GreenBytes notar vélnám (e. machine learning) til að besta aðfangakeðju veitingastaða með það að markmiði að draga úr matarsóun, minnka kolefnisspor og auka hagnað.
Tinna Hallgrímsdóttir hefur gengið til lið svið Klappir grænar lausnir sem sérfræðingur í sjálfbærni. Tinna er forseti Ungra umhverfissinna, einn skipuleggjenda Loftslagsverkfallsins og var skipuð á dögunum af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í Loftslagsráð.
ORF líftækni selur tilbúna vaxtaþætti til erlendra fyrirtækja sem nota það sem hráefni í stofnfrumuræktað vistkjöt. Fyrirtækið stefnir að því að skala upp framleiðsluna í Grindavík.
Loki Foods var valið til að taka þátt í Big Idea Ventures Alternative Protein hraðlinum í París.
Grænland heldur úti íslenska loftslagslistanum, lista yfir loftslagstæknifyrirtæki á Íslandi. Sendið okkur ábendingar um fréttir eða fyrirtæki.
Annað sem við lásum
😱Óþekktir aðilar frömdu skemmdarverk á Nord Stream 2 gasleiðslunni í Eystrasaltinu og metið er að 115.000 t af metani hafi lekið út í andrúmsloftið, ~0,14% af heildar metanlosun heimsins á ári. Metanskýið teygði sig langa leið til Íslands. Rússar hafna því að bera ábyrgð á skemmdarverkinu.

🤯Rafmagn í Evrópu er orðið mjög dýrt, raforkukerfi eru undraverð en óendanlega flókin og Evrópa virðist vera of fljót að slökkva á kjarnorkuverunum:


🙏 Bandaríkin verða 138 þjóðin til að staðfesta Kigali viðauka Montreal bókunarinnar, sem skuldbindur þjóðir til að draga úr notkun og framleiðslu vetnisflúorkolefna (HFC) - mjög sterkra gróðurhúsalofttegunda. Talið er að Kigali viðaukinn gæti dregið úr hlýnum um 0,5°C fyrir 2100 ef allar þjóðir heims tækju þátt í því.
🐺 Mörg þeirra villtu spendýra sem voru nánast útdauð í Evrópu eru að ná sér aftur á legg. Veiðistjórnun og verndun á landsvæðum virðist virka og ef við viljum tryggja fjölbreytni í dýralífinu þá þurfum við að:
Ákveða hvaða svæði við ætlum að nýta
Verða betri í að nýta þau
Leyfa restinni að vera ósnert
Áhugavert að Ísland er eitt af fáum löndum sem leyfa veiðar á landsel. Í því samhengi er líka fínt að benda á að við veiddum 148 langreyðar í sumar og þrátt fyrir að kolefnisförgun með hvölum sé ekki lausnin á loftslagsvandanum þá er þetta hvorki hefð né atvinnuvegur og við ættum að hætta þessum veiðum.
🤔Við þurfum að huga að ýmsum atriðum áður en við ákveðum að nota ammoníak sem eldsneyti fyrir þungaflutninga:


🎨 Það verður erfiðara og erfiðara að gera forsíður á græna bókhaldið: