Nr 11: Hver fjármagnar loftslagsverkefni?
Þetta helst
🇮🇸 Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, hvetur ríkið til að styðja við græna iðnbyltingu með því að koma á kerfi um vilyrði um mótframlag þegar íslensk verkefni sækja um styrki úr Nýsköpunarsjóði Evrópu. Samkvæmt Eddu mun loforð um fjárhagslegan stuðning frá stjórnvöldum í heimalandinu auka líkurnar á því að hljóta styrki úr sjóðnum. Fjármagnið geti t.d. komið frá tekjum ríkisins af sölu losunarheimilda. Ekki finnst öllum augljóst af hverju mótframlagið þarf að koma frá íslenska ríkinu frekar en einkaaðilum. Carbfix er opinbert hlutafélag og dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur en Orkuveitan skilaði 12 milljarða hagnaði árið 2021. Í fyrra er metið að loftslagstæknifyrirtæki á heimsvísu hafi safnað u.þ.b 40 milljörðum dollara í fjármögnun frá fjárfestum (u.þ.b. 5.000 milljarðar ISK) og það hefur líklega aldrei verið auðveldara að sækja fjármagn fyrir loftslagsverkefni heldur en í dag - hvort sem það gerist með eða án stuðningi stjórnvalda.
💰 Rekstur Landsvirkjunar virðist einnig ganga vel og á síðasta áratug lækkuðu skuldir um meira en 150 milljarða á sama tíma og fyrirtækið byggði þrjár virkjanir sem kostuðu um 100 milljarða. Ríkið fær 15 milljarða í arð og býst við því að sjá sambærilegar greiðslur á næstu árum.
🏭 Bandaríska fyrirtækið Almex USA Inc stefnir að því að endurvinna ál í Helguvík en Almex framleiðir búnað fyrir úrvinnslu og endurvinnslu á áli. Í fyrri áfanga verkefnisins er ætluð ársframleiðsla 45.000 tonn og að starfsmenn verði um 60 þegar verksmiðjan er í fullum afköstum samkvæmt fundargerð Bæjarráðs Reykjanesbæjar.
🐟 Matís stýrir tilraunaverkefninu Grænir frumkvöðlar framtíðar sem hefur það að „meginmarkmiði að fræða íslenska grunnskólanemendur um loftslags- og umhverfismál og sjálfbærni, áhrif loftslagbreytinga á hafið og lífríki þess og ekki síst, möguleg áhrif á sjávarútveg og samfélagið.“ Hluti verkefnisins er nýsköpunarkeppni þar sem krakkar úr 9. bekk í Árskóla á Sauðárkróki, Grunnskóla Bolungavíkur og Nesskóla á Nesskaupsstað keppast við að kynna lausnir við áskoruninni: Hvernig getum við dregið úr notkun plasts við pökkun fisks og rækju? Meðal hugmynda eru álkassi og roðplötur til að minnka plastnotkun. Verkefnið er styrkt af Loftslagssjóði.
⛈ Veðurstofa Íslands er í verulegum fjárhagsvandræðum og þarf að skera niður um 126 milljónir króna á næstu tveimur árum. Búið er að ráðast í uppsagnir og eina sviðið sem ekki varð fyrir skerðingu er eftirlitssvið. Samkvæmt yfirlýsingu telja sérfræðingar og vísindafólk á Veðurstofu Íslands að „viðvarandi niðurskurðaraðgerðir geti valdið verulegri og varanlegri röskun á getu Veðurstofu Íslands til þess að sinna brýnum og lögbundnum skyldum sínum.“
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu á þá „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Annað sem við lásum
🥵 Í fyrsta skipti greinist kóralbleiking á meðan La Niña veðurfyrirbrigðið er ríkjandi á Kyrrahafinu. Á loftmyndum sést að 1.200 langt svæði af Kóralrifinu mikla er undir mikilli bleikingu en þetta er í sjötta skiptið sem sem slík kóralbleiking greinist. „Unexpected events are now to be expected. Nothing surprises me any more “ segir Dr. David Wachenfeld, yfirvísindamaður hjá Great Barrier Reef Marine Park Authority.
💨 Breska ríkisstjórnin íhugar að bjóða upp á ódýrara raforkuverð hjá þeim sem búa nálægt vindorkuverum. Breska orkufyrirtækið Octopus býður nú þegar upp á svipaða verðskrá: 20% afslátt þegar túrbínan snýst, 50% á meðan hún er að ná upp hraða. Yes, in my backyard?
📈 CORCX er kolefnisbrottnámsvísitala Nasdaq og Puro.earth.
📝 Nature fjallar ítarlega um hvað þarf að gerast í sement- og stálframleiðslu ef við ætlum að ná kolefnishlutleysi. M.a. nota minna og endurvinna, breyta framleiðsluaðferðum, grípa útblástur og geyma í steypu.
🧂 Hvað verður um saltið á götunum? Ein teskeið af salti getur mengað 22 lítra af vatni og yfirvöld í Bandaríkjunum vinna í því draga úr vegsöltun og taka upp snjallsöltun, t.d. með því að bleyta götur með saltblöndu áður en stormurinn skellur á. Salt er þó skömminni skárra en sandur sem hálkuvörn ef tekið er tillit til svifryksmengunar.
🌋 Grist fjallar um framtíð jarðhitaorku.
🎢 Fram til ársins 2017 var Disney World í Flórida með áróðursrússibana kostaðan af olíufyrirtækinu Exxon. Ellen DeGeneres og Bill Nye hjálpuðu gestum að sjá kraftaverkið í jarðefnaeldsneyti og mynda sér efasemdir um loftslagsbreytingar.