Nr 13: „Allt er vænt sem vel er grænt“ og íslenski loftslagslistinn
Allt er vænt sem vel er grænt
Ef marka má nýlegan fréttaflutning, umfjöllun og umræðu er grænn orðinn einn uppáhaldslitur þjóðarinnar. Það er græn iðnbylting á leiðinni, fjölmörg sveitarfélög stofna græna iðngarða, græni dregillinn liggur útbreiddur, og grænir frumkvöðlar eru þjálfaðir í skólum. Þá ætlar ríkið að hvetja til og styðja við grænar lausnir og græna atvinnuuppbyggingu:
Ísland á að verða vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Stutt verður við græna atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar ásamt því að greiða götu verkefna, m.a. á sviði föngunar, geymslu og förgunar kolefnis, uppbyggingu hringrásarhagkerfs með fjölnýtingu orkustrauma og orkuskipta. (Úr stjórnarsáttmála)
En hvað er „grænn iðnaður“ og „græn atvinnuuppbygging?“ Er nóg að framleiðsla sé knúin endurnýjanlegri orku, en ferillinn losi CO2? Eða að ferillinn losi engan koltvísýring, þó að orkan sé skítug? Er krafan að bæði aðkeypt orka og ferill séu kolefnislaus? Þarf lógóið að vera grænt?
Eða er grænn iðnaður eitthvað allt annað? Og hver getur skilgreint grænan iðnað? Þarf að skilgreina grænan iðnað?
Wikipedia skilgreinir græna iðnaðarstefnu (e. Green Industrial Policy) sem stefnu stjórnvalda sem reynir að hraða uppbyggingu á grænum iðnaði og þróun hagkerfisins í átt að lægra kolefnisspori. Sameinuðu þjóðirnar lýsa grænum iðnaði sem hagkerfum sem stefna að sjálfbærum vexti með því að leggjast í grænar opinberar fjárfestingar og hvetja til umhverfislega ábyrgra fjárfestinga einkaframtaks. Hvorugt finnst okkur mjög skýrt eða hjálplegt til að skilja og greina iðnaðinn.
Í ljósi þess að stjórnvöld hafa sett sér háleit markmið um að Ísland verði vagga nýrra lausna og styðji við grænan iðnað hlýtur að vera mikilvægt að það sé samstaða um hvað sé grænn iðnaður. Ein leið mætti skipta grænum iðnaði í tvo megin flokka:
Í fyrsta lagi snýst grænn iðnaður um að koma í veg fyrir losun með því að búa til leiðir til að skipta út eða umbreyta ferlum, framleiðslu, og þjónustum svo þær byggi ekki á jarðefnaeldsneyti eða valdi ekki útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum að skipta um vélar, orkugjafa og orkugeymslu í bílum, flugvélum, skipum og vinnuvélum. Við þurfum að hætta að nota jarðefnaeldsneyti sem aðfang og orkugjafa þegar við búum til málningu, tannkrem, sjampó og aðrar efnavörur. Við þurfum að finna upp og nýta nýja ferla til að framleiða áburð og matvörur. Til að knýja alla þá breytingu þurfum við fjárfestingar úr öllum áttum og ógrynni af fyrirtækjum sem finna upp, þróa, selja og þjónusta þessar nýju leiðir. Þessum hópi mætti skipta upp í nákvæmari flokka.
Í öðru lagi þurfum við að hreinsa upp eftir okkur, með kolefnisföngun, -fjarlægingu, og -förgun (e. capture, removal, sequestration). Það er nýr iðnaður sem er eingöngu til vegna þess að við höfum nú þegar losað of mikið af gróðurhúsalofttegundum og erum búin að vera lengi að bregðast við. Fyrirtæki og stofnanir eiga fyrst að koma í veg fyrir losun og síðast að fjarlægja. Þrátt fyrir það er föngun, förgun og fjarlæging nauðsyn, og nýr iðnaður sem nýtir tækni og líffræðilega ferla verður til. Nokkur framsækin tæknifyrirtæki - t.d. Stripe, Shopify, Microsoft, Amazon - eru byrjuð að kaupa „vöruna“, vilja ýta við öðrum að gera hið sama, og stofnuðu nýlega samtök með það að markmiði (sjá síðar í póstinum).
Greiningaraðilar bjóða upp á aðrar skilgreiningar:
Í skýrslunni, State of Climate Tech 2021, skilgreinir ráðgjafafyrirtækið PWC Climate Tech sem þrjá breiða hópa sem eru óháðir geirum:
1) fyrirtæki sem minnka losun með beinum hætti eða fjarlægja koltvísýring og útblástur,
2) fyrirtæki sem hjálpa mannkyni að aðlaga sig að breyttu loftslagi (e. adoption), og
3) fyrirtæki sem auka skilning okkar á loftslaginu.
Climate Tech VC - annað mjög gott fréttabréf um loftslagsbreytingar, tækni, og fjármagn - flokkar climate tech í sjö flokka: orkuframleiðslu og geymslu, mat & vatn, samgöngur, iðnað, neytendavöru, gögn og greiningar um loftslagið, kolefnisföngun og förgun.
Sama hvaða skilgreiningu við endum á að nota, er eina leiðin til að við getum markvisst byggt upp grænan iðnað að vera (að mestu leyti, allavega) sammála um hvað grænn iðnaður er.
Hvað finnst þér?
Íslenski loftslagslistinn
Í kjölfar þess að við vorum mikið að pæla í grænum iðnaði síðustu vikur, ákváðum við að gera yfirlit yfir þau fyrirtæki á Íslandi sem eru í climate tech, og notuðum til þess flokkunarkerfi Climate Tech VC. Við merktum líka tengsl fyrirtækjanna við Ísland - hvort þau voru stofnuð hér, séu dótturfélög eða útibú.
👉 Listinn er hér. Markmiðið er að hafa aðgengilegt og þokkalega vel uppfært yfirlit yfir fyrirtæki sem starfa í þessum bransa. Við munum líklega bæta við gagnapunktum þegar á líður.
Þakkir til Ragnheiðar H. Magnúsdóttur og Auðar Nönnu Baldvinsdóttur fyrir að lesa yfir og koma með ábendingar.
Hvaða fyrirtæki vantar? Sendu okkur línu og við bætum því við.
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu á þá „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Þetta helst
🐣 Páskavikan var risastór fyrir heim kolefnisförgunar (e. carbon removal).
Stuttu eftir að Climeworks tilkynnti um stærstu fjármögnun kolefnisförgunarfyrirtækis frá upphafi (~$650m / 83 milljarðar ISK), kom tilkynning frá Frontier Climate, nýju „advance market purchase“ verkefni sem ætlar að kaupa kolefnisförgun á valfrjálsum kolefnisjöfnunarmörkuðum (e. voluntary markets) fyrir $925m (118 milljarðar ISK) á næstu 10 árum.
Daginn eftir tilkynnti Lowercarbon Capital um nýjan $350m (45 milljarðar ISK) sjóð sem mun einungis fjárfesta í fyrirtækjum sem vinna að kolefnisförgun. Þá tilkynnti orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna um $14m í styrki til fimm rannsóknarverkefna sem skoða mismunandi leiðir til að grípa og geyma CO2.
Að lokum kynntu XPRIZE þau 287 teymi sem teljast fullgildir keppendur í kolefnisförgunarkeppni verðlaunanna. Eitt þeirra er á Íslandi, samstarfsverkefni Carbfix og GreenCap Solutions um uppsetningu direct air capture stöðvar, tengda niðurdælingartækni Carbfix (svipað og þau gerðu með Climeworks). Carbfix er að auki í þremur teymum sem náðu í topp 60 keppendur, með Heirloom Carbon, RepAir, og Verdox. Heildarverðlaun XPRIZE verða veitt árið 2025 og mun sigurvegarinn hljóta $50m. Á morgun - Earth Day - munu 15 verkefni hljóta vörðuverðlaun (e. milestone) upp á $1m.
Allt þetta mjög stuttu eftir að skýrsluhöfundar nýjustu skýrslu IPCC tóku af allan vafa um að þó að við eigum að einblína á að minnka og hætta losun í helstu virðiskeðjum þá sé kolefnisföngun og förgun nauðsynleg. Það hefur aldrei verið jafn góður tími til að stofna kolefnisförgunarfyrirtæki. Við ætlum munum skoða betur kolefnisförgun, hvað hún er og hvað hún er ekki, í næstu bréfum.
⚖️ Deilt var um hversu mikil losun kolefnis er frá framræstu votlendi á Íslandi. Ný rannsókn frá Landbúnaðarháskólanum telur losunina vera verulega ofmetna en Landgræðslan er ekki sammála og segir rannsóknina takmarkaða. Slík óvissa gerir það örugglega erfitt að fá vottun á kolefnisjöfnun með föstum margfaldara á hektara eins og Votlendissjóður hefur gert síðastliðin ár.
Annað sem við lásum
🏡 Danska ríkisstjórnin ætlar að tengja um 400.000 hús við hitaveitu og verða óháð jarðgasi fyrir 2030. 13% orkunotkunar Danmerkur er jarðgas sem kemur annars vegar frá Rússlandi og hins vegar úr eigin borholum í Norðursjó.
💸 Það virðist sem það sé erfitt fyrir Evrópsk loftslagsfyrirtæki að sækja sér fjármagn eftir að þau ná ákveðinni stærð. Breakthrough Energy Catalyst reynir að fylla upp í tómarúmið. Vísisjóðir eru gagnrýndir fyrir að fjárfesta of litlu í endurnýjanlega orku ($11,9 milljarðar) samanborið við rafmyntir og bálkakeðjur ($30,1 milljarðar) samkvæmt tölum frá PitchBook.
🧟♀️ Samkvæmt greiningu CarbonPlan á Toucan og KLIMA bálkakeðjukolefnisjöfnunarverkefnunum1 eru verkefnin meingölluð því þau treysta of mikið á það að öll kolefnisjöfnunarverkefni hjá Verra séu vönduð - sem þau eru alls ekki. Tilkoma Toucan og KLIMA hefur því vakið til lífsins léleg „zombie“ kolefnisjöfnunarverkefni, verkefni sem aðrir jöfnunarmarkaðir hafa hundsað vegna gæða.
⚡️Ford veðjar öllu á velgengi F-150 Lightning rafpallbílsins. 200.000 bílar hafa verið seldir í forsölu, framleiðslan hófst síðasta mánudag en ekki hefur verið staðfest hvort bíllinn fari í sölu í Evrópu á þessu ári. Ódýrasta útgáfan kostar $40.000 (u.þ.b. 5,1m ISK). Til samanburðar þá seldi Tesla hátt í 1 milljón bíla í fyrra.
🧹Góð greining á því af hverju kolefnisjöfnun sem forðast losun (e. avoided emissions) er töluvert verri en kolefnisjöfnun sem fjarlægir kolefni úr andrúmsloftinu (e. removal + sequestration). „To put it another way: sequestration is when I clean my room. Avoided emissions are when I pay my brother to clean his room. Only one approach can lead to a tidy house.“

😅