Nr 20: „We’re back!“
Eftir þokkalegt sumarfrí er Grænland komið aftur í gang. Markmiðið er sem áður að senda út bréf í hverri viku með umfjöllun og fréttum um það helsta í loftslagsmálum á Íslandi. Við ætlum líka að bæta í umfjöllun um fyrirtæki á íslenska loftslagslistanum.
Endilega sendið okkur ábendingar, tillögur og endurgjöf á efnistök!
Guffi, Jói og Kiddi
Þetta helst
Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Umhverfisstofnun jókst losun gróðurhúsalofttegunda án landnotkunar og skógræktar (LULUCF) um 3% á milli áranna 2020 og 2021. Samkvæmt tölunum var losun á beinni ábyrgð Íslands 2807 kt CO2-íg og jókst um 2% á milli ára.
📈 Vegasamgöngur: 4% aukning, aðallega í aukinni losun frá hópferða- og vörubifreiðum.
📈 Fiskiskip: 13% aukning, m.a. vegna loðnuveiði ársins 2021.
📈 Málmframleiðsla: 4% aukning.
📉 Kælimiðlar (f-gös): 15% samdráttur.
📉 Landbúnaður: 1,5% samdráttur.
Auk þess jókst losun frá alþjóðaflugi um 58%. 🛫
Núverandi skuldbindingar um losun samkvæmt Parísarsáttmálanum kveða á um að Ísland skuli hafa dregið úr losun á beinni ábyrgð um 29% árið 2030 miðað við 2005, þ.e. að losun árið 2030 verði 2256 kt CO2-íg. Núverandi ríkisstjórn hefur hinsvegar sett sér sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við 2005, svo markmiðið er í raun að losun ársins 2030 á beinni ábyrgð Íslands verði 1430 kt CO2-íg.
Á hverju ári úthlutar Evrópusambandið losunarheimildum og fyrir árið 2021 voru þær 2876 kt CO2-íg samkvæmt Umhverfisstofnun. Þessar losunarheimildir eru líklega reiknaðar miðað við 29% markmiðið. Í langsóttum skilningi má því segja að við séum að standa okkur örlítið betur en búist var við og nýtum ekki allar losunarheimildirnar fyrir árið 2021 (2807/2876 = 97.6% => 2.4% minni losun), líklega þökk sé áhrifum COVID-19 á samfélagið. Hinsvegar er ljóst að ef við ætlum að ná 55% samdrættinum þá þarf losun að minnka verulega á hverju ári, rúmlega 7% á hverju ári næstu 9 árin ef við ætlum að ná markmiðunum.
Það er því ljóst að það er langt í land.
Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, stefnir á samstarf við atvinnulífið um að setja mælanleg markmið í loftslagsmálum fyrir hverja atvinnugrein til að halda losuninni niðri. Hugmyndin er að norrænni fyrirmynd og tekur Guðlaugur Þór skíðasvæðin í Svíþjóð sem dæmi.
„Jákvæðu“ fréttirnar: losun frá fólksbílum hefur dregist saman þrátt fyrir að heildarfjöldi ekinna kílómetra fólksbíla hafi aukist. Hérna þyrfti að fara í dýpri greiningu en samkvæmt tölum frá Samgöngustofu hefur fólksbílum fjölgað um ~7% frá 2018 en það eru vissulega færri fólksbílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti í umferð.
Við þurfum ennþá að losna við tæplega 200.000 slíka fólksbíla úr umferð sem fyrst. Það verður síðan áhugavert að fylgjast með því sem gerist þegar allir hybrid PHEV bílarnir eldast - verður hagstætt að laga gamlar rafhlöður eða munu eigendur þeirra keyra á jarðefnaeldsneyti?
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu þá á „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Fréttir frá loftslagslistanum
Gefn fær Svansvottun á tvær af sínum vörum.
Blue Rock Eco Housing forpanta 3200 rafhlöður frá rafhlöðufyrirtækinu Alor
Carbfix er að byrja að prófa niðurdælingu með sjó í Helguvík.
Tveir fyrirlestrar frá grænum fyrirtækjum á haustráðstefnu Advania: Renata frá Greenbytes (A step towards a sustainable food system) og Kiddi frá Running Tide (The birth of an industry: Ocean Health and Carbon Removal)
Loki Foods sækir rúmar 90m í fjármögnun.
Grænland heldur úti íslenska loftslagslistanum, lista yfir loftslagstæknifyrirtæki á Íslandi. Sendið okkur ábendingar um fréttir eða fyrirtæki.
Annað sem við lásum
🚨Dómsdagsviðvörun: Við erum á barmi óafturkræfra vendipunkta, samkvæmt rannsókn sem birt var í Science. Núverandi hlýnun, sem stendur í ~1,1°, er þegar á því bili sem gæti virkjað fimm þeirra: Greenland Ice Sheet Melting, West Antarctic Ice Sheet Collapse, Tropical Coral Reef Die off, Northern Permafrost abrupt thaw, Labrador Sea current collapse.
🤭 Grínistinn John Oliver tók kolefnisjöfnun (carbon offsets) fyrir í nýlegum þætti. (ath. Það þarf VPN fyrir þennan hlekk. Hér er annar með broti úr þættinum sem virkar á Íslandi). Í stuttu máli þá er hann ekki spenntur fyrir kolefnisjöfnun og tekur fyrir fyrirtæki sem nota jöfnun til grænþvottar. Ekki allir eru sammála hans nálgun: Verra birti pistil sem svarar fyrir hönd kolefnisjöfnunarbransans, sem og fleiri.
🏪 Á CDR.fyi er hægt að skoða yfirlit yfir kaup á kolefnisföngun og förgun („carbon removal“) sem tilkynnt hafa verið og hver staðan er á að félögin skili af sér einingum.
🚗 Hraðbrautastefna bandarískra borga sætir alltaf meiri og meiri gagnrýni vestanhafs. Í flottri grein um stækkun hraðbrautar í Houston biður blaðamaður „Mr. Biden, tear down this highway.“ Miklubraut og Hringbraut í stokk!
🚜 Bændur á Þorvaldsstöðum undir Eyjafjöllum eru að hefja framleiðslu á lífdísil úr repju af eigin akri. Olíunni er svo blandað í dísilinn til að minnka kolefnisspor býlisins.
🔌 Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti að 35 fylki fái styrki til að byggja upp rafhleðsluinnviði. Markmiðið sé 500,000 hleðslustöðvar víðs vegar um landið. Orkusjóður úthlutaði 160m ISK í 169 hleðslustöðvarverkefni í síðustu úthlutun.