Nr 9: Hvað þurfum við eiginlega mikla orku?
Starfshópur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skilaði í síðustu viku frá sér skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum. Markmið skýrslunar voru að:
Gera grein fyrir orkuþörf út frá markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og setja upp sviðsmyndir um hversu mikla orku þarf til þess að ljúka orkuskiptum.
Gera grein fyrir stöðunni í flutningskerfi raforku
Gera grein fyrir stöðunni á orkumarkaði á Íslandi og getu hans til að tryggja orkuöryggi almennings
Gera grein fyrir núverandi stöðu á framboði og eftirspurn raforku og hvernig þau máli geti þróast næstu mánuði og ár.
Skýrslan skoðaði sex sviðsmyndir sem lýstu aukinni orkuþörf á bilinu 9-125% árið 2040 miðað við 2020:
Skýrsluhöfundar settu fram glærusýningu sem draga fram aðalatriðin úr skýrslunni og Stundin bjó til glærur af gamla skólanum til að útskýra vöxtinn.
Mjög skiptar skoðanir eru um ágæti skýrslunnar. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir „draumóra orkugeirans“ birtast í skýrslunni og að „íslenskri náttúru yrði fórnað“ með meiri orkuöflun. Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins og einn höfunda skýrslunnar segir að mörg dæmi séu um að nýsköpunartækifæri á landsvísu hafi glatast „vegna skorts á raforku eða veikrar stöðu í flutningskerfi raforku“. (Sigríður kallar í sömu andrá ál- og kísilverksmiðjur græna orkusækna iðnaðarstarfsemi sem okkur finnst langsótt 🤷♂️). Heitar umræður á Alþingi um orkuna.
Við ætlum að gefa okkur meiri tíma til að skoða sviðsmyndirnar og fjalla betur um þær í næstu bréfum.
Ef einhver sendi þér þetta, smelltu á þá „Subscribe“ til að skrá þig. Endilega sendu áfram ef þér finnst þetta áhugavert. Einnig er hægt að lesa fyrri greinar.
Þetta helst
😱 Um 9.200 lítrar af olíu frá kyndistöð Orkubús Vestfjarða á Suðureyri láku út í sjó, aðkoman var „martraðakennd“ og a.m.k hundrað æðarfuglar drápust eða þurfti að aflífa. Þrír dagar liðu á milli þess að tilkynning barst þar til slöngur voru settar í vatnið til að hindra útbreiðslu olíunnar. Mikil lykt lagðist yfir bæinn og hreinsunarstarfið mun taka vikur. Því fyrr sem við verðum óháð jarðefnaeldsneyti, því betra!
💨 Kveikur fjallar um vindorku. Margt vel gert, margar hliðar skoðaðar en skoðun fréttamanna á vindorkuverum virðist skína sterkt í gegn. Áhersla í framsetningu, leiðandi og gildishlaðnar spurningar og tímasetningar í klippingu gera það erfitt að verða ekki á móti vindorku og byrja að hugsa „not in my backyard“ - sem er einmitt ekki hugsunin sem við þurfum á að halda ef við ætlum að leggja okkar að mörkum gegn loftslagsvánni. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar komu mjög vel fram.
⛏ Verne Global hefur á síðustu árum sagt upp öllum samningum sínum við viðskiptavini sem grafa eftir Bitcoin. Dominic Ward, forstjóri, segir að „þjóðin ætti að fá að vita hve mikil orka fer í rafmyntagröft“ en segir líka að „Bitcoin og hinar rafmyntirnar hafi gert Íslandi kleift að verða gagnaversland.“ Samkvæmt Ward voru rafmyntir eina leiðin í fyrstu til að fá inn nógu stóra kúnna til að ná yfir 10 MW markið sem þarf til að semja um raforku sem stórnotandi. Í dag telur Ward að 159 MW af um 200 MW af uppsettu afli gagnavera á Íslandi séu notuð í rafmyntagröft. Árið 2020 var heildar uppsett rafafl 2.936 MW, raforkuframleiðsla 19.127.302 MWst og samkvæmt nýju stöðuskýrslunni (bls 47) þá notuðu gagnaver 828.000 MWst af orku í stórnotkun (~4% af heildarnotkun). Svo ef Ward hefur rétt fyrir sér um 159 MW þá má kannski ímynda sér að ~3.4%1 af rafmagnsnotkun á Íslandi sé notuð í rafmyntagröft2.
Annað sem við lásum
🌊 Það eru svo mikil flóð í austur Ástralíu að þau sjást greinilega á gervihnattamyndum
🌧 Það er orðið erfiðara að taka ákvarðanir um innviði framtíðar út frá gögnum fortíðar. Borgir í Bandaríkjunum eru að byggja fráveitukerfi út frá úrkomutölum frá því fyrir aldamót en þau gögn endurspegla ekki loftslagsbreytingar.
🌉 Tölvuleikurinn Horizon Forbidden West ímyndar sér hvernig San Francisco gæti litið út eftir loftslagshamfarir.
🧫 Biomason notar örverur til að framleiða sement án þess að losa gróðurhúsalofttegundir.
💯 Við mælum mjög með Climate Tech VC fréttabréfinu. Mjög góð greining á raforkukerfi framtíðar
🙈 Nissan gefur út rafbíl sem gengur fyrir… bensíni. 🙃
🐳 Hvalir fanga mikið af kolefni yfir líftíma sinn og gera hafið frjósamara. Fjölgun hvala við strendur getur verið merki um að hafið sé orðið fæðusnauðara.
159 / 200 * 828000/19127302 = 0,0344 eða 3,4%
Leiðrétting: upprunalega útgáfan af póstinum sagði: „er ~5% af aflþörf á Íslandi notuð í rafmyntagröft“ (159 MW / 2936 MW), sem er ónákvæmt og líklega ekki rétta leiðin til að setja þessa fullyrðingu Wards í samhengi.